Smá um mig
Ég heiti Jana Katrín og er 22 ára gömul. Ég fæddist í Kaupmannahöfn en flutti ung á Ránargötu í Reykjavík þar sem ég ólst upp. Ég átti mjög fallega æsku í Vesturbænum og fann allt frá upphafi fyrir mikilli löngun til að skapa. Á veggjum íbúðarinnar okkar á Ránargötunni héngu eftir mig myndir og málverk og voru hvers kyns listasýningar settar á stokk fyrir vini og vandamenn. Öll blöð og bækur voru yfirfullar af teikningum og fengu ærslaleikir barnanna í götunni oftar en ekki að víkja fyrir þeirri sterku sköpunarþörf sem búið hefur innra með mér síðan.
Þegar ég hafði slitið barnsskónum var förinni heitið í Menntaskólann í Reykjavík. Þar eignaðist ég vini fyrir lífstíð en fann fljótt að bóknámið svalaði ekki sköpunarþörfinni. Ég skipti því yfir í Menntaskólann við Hamrahlíð. Þar gat ég sniðið námið betur að eigin hugðarefnum og lauk ég stúdentsprófi með áherslu á tungumál og listasögu vorið 2019.
Ég vissi að ég yrði að finna mér starfsvettvang sem byði upp á fjölbreytt og skapandi verkefni. Ég áttaði mig á að leiðin hefur raunar alltaf legið að grafíkinni þar sem mörg áhugamála minna koma saman og því hóf ég nám við Tækniskólann haustið 2019.
Í náminu lærði ég grunninn að grafískri miðlun og er það kunnátta sem ég veit að mun nýtast mér vel í áframhaldandi námi og starfi síðar meir.